Innlent

Byrjað að troða snjó í Bláfjöllum

Verið er að opna skíðasvæði landsins eitt af öðru eftir rausnarlega snjókomu upp á síðkastið. Í Oddsskarði vantar peninga, en ekki snjó, og verður ekki opnað þar að sinni.

Skíðasvæðið á Dalvík verður opnað í dag, en fyrst um sinn verður aðeins neðri lyftan opin.

Verulega hefur bætt í snjó í Böggvisstaðafjalli síðustu daga og þar er einnig snjóframleiðsla í gangi. Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli, ofan við Akureyri verður opnað í fyramálið.

Þar verða allar brautir og lyftur opnaðar nema stromplyftan svonefnda, þar sem ekki er enn nægulegur snjór þar efra. Opnunin núna er um hálfum mánuði síðar en í fyrra.

Þá hefur snjó kyngt niður í Bláfjöllum. Þar er farið að troða snjó og íta frá girðingum. Búið er að opna nokkrar gönguleiðir, en óvíst er hvenær hægt verður að opna lyftur, því snjó skortir efst í brekkurnar og engin snjóframleiðslutæki eru í Bláfjöllum. Þess í stað er verið að ýta snjónum upp, sem er tímafrekt verk.

Búið er að opna göngubrautir á skíðasvæðinu á Seljalandsdal við Ísafjörð. Þar styttist í að lyfturnar verði líka opnaðar. Skíðasvæðið á Siglufirði verður opnað á morgun þegar tvær lyftur af þremur verða ræstar.

Austfirðingar verða hinsvegar að bíða eitthvað með skíðaiðkun í vetur, því sveitarfélagið Fjarðabyggð ákvað að leggja ekki í neinn kostnað við að opna skíðasvæðið í Oddsskarði fyrir áramót, í sparnaðarskyni.

Uppfært: 14:15: Ingibjörgu Ólafsdóttur upplýsingafulltrúa Fjarðarbyggðar, vill koma því á framfæri að reynt verði að opna skíðasvæðið í Oddskarði þriðja í jólum. Hún segir að enn vanti 20 til 30 sentimetra þykkt lag af snjó þar til hægt verði að skíða á svæðinu. Verið er að vinna að undirbúningi og er maður í fullri vinnu hjá sveitarfélaginu að troða brekkurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×