Real Madrid fær að sitja á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar í nótt að minnsta kosti eftir 1-0 sigur á Real Sociedad í kvöld.
Gonzalo Higuain skoraði sigurmark Madrídinga strax á níundu mínútu leiksins eftir sendingu Fabio Foentrao og þar við sat. Þetta var tíunda mark Higuain í jafn mörgum leikjum á leiktíðinni.
Cristiano Ronaldo hefur einnig skorað tíu mörk en markahæstur í spænsku úrvalsdeildinni er Lionel Messi, leikmaður Barcelona, sem hefur skorað þrettán mörk en hann skoraði þrennu í 5-0 sigri Barcelona á Real Mallorca fyrr í kvöld.
Madrídingar eru þó á toppnum í nótt en spútniklið Levante getur endurheimt toppsætið á morgun með sigri á Osasuna á útivelli.

