Innlent

Glitnismenn leiddir fyrir dómara - myndband

Myndatökumenn á Fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis voru fyrir utan húsnæði sérstaks saksóknara í gærkvöldi þegar að skýrslutökum yfir fyrrum starfsmönnum Glitnis lauk og fyrir utan Héraðsdóm Reykjavíkur þegar farið var fram á gæsluvarðhald yfir þremur þeirra.

Sérstakur saksóknari fór fram á gæsluvarðhald yfir fjórum fyrrum starfsmönnum bankans. Þeim Jóhannesi Baldurssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra markaðsviðskipta Glitnis, Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, Inga Rafnari Júlíussyni, fyrrverandi starfsmanni bankans og Elmari Svavarssyni miðlara.

Lárus fór fyrir dómara um klukkan sex og náðust ekki myndir af honum.

Dómari úrskurðaði þrjá fyrst nefndu í vikulangt gæsluvarðhald en ekki þann síðastnefnda, Elmar Svavarsson.

Tveir af þessum þremur hafa áfrýjað niðurstöðu dómara til Hæstaréttar, en ekki liggur fyrir hverjir það eru. Sérstakur saksóknari getur ekki kært þá niðurstöðu dómara að hafna því að setja Elmar í varðhald og því er sú niðurstaða endanleg.

Til rannsóknar er grunur um meint brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafnir á fjármunum Glitnis, brot á lögum um verðbréfaviðskipti, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um ársreikninga og lögum um bókhald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×