Innlent

Þúsundir fjármögnunarleigusamninga í uppnámi

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að fjármögnunarleigusamningur sem fyrirtækið gerði við Lýsingu hafi verið ólöglegur. Þúsundir sambærilegra samninga eru í uppnámi vegna dómsins en stjórnarformaður Lýsingar segir að fyrirtækið fari ekki í þrot verði þetta niðurstaða Hæstaréttar.

Fyrirtækið Smákranar ehf. stefndi Lýsingu vegna fjármögnunarleigusamnings og var það niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í dag að samningurinn væri í raun lánssamningur sem fæli í sér óheimila gengistryggingu og þarf því Lýsing að greiða Smákrönum rúma milljón króna og tvær milljónir í málskostnað.

„Niðurstaðan í þessu máli er auðvitað dæmi um það hvernig lítil þúfa getur velt þungu hlassi, smákranar er lítið fjölskyldufyrirtæki sem hefur núna komið því til leiðar að fallinn er dómur sem mun hafa bein áhrif á fjárhagstöðu hundruði íslenskra fyrirtækja," segir Einar Hugi Bjarnason, héraðsdómslögmaður Smákrana ehf.

Lýsing hefur ákveðið að áfrýja dómnum til Hæstaréttar og segir Einar að fyrirtækið ætti ekki að senda út greiðsluseðla fyrren endanleg niðurstaða fæst. Í samtali við fréttastofu í dag sagði hins vegar stjórnarformaður Lýsingar, Magnús Scheving Thorsteinsson, að dómurinn muni ekki hafa áhrif á starfsemi Lýsingar og greiðsluseðlar verði áfram sendir út.

Athygli vekur að í ársreikningi Lýsingar frá 2010 kemur fram að fari svo að gengistrygging fjármögnunarleigusamninga verði dæmd ólögmæt megi gera ráð fyrir að það hafi neikvæð áhrif á rekstur og efnahag félagsins og óvissa kann því að verða um rekstrarhæfi þess.

Magnús segir að vissulega myndi það þýða mikið högg á rekstur félagsins ef Hæstiréttur kemst að sömu niðurstöðu. Hins vegar sé eiginfjárstaða Lýsingar mjög sterk og jafnvel þó færi á versta veg muni eigið fé haldast jákvætt og gjaldþrot sé ekki inni í myndinni. Um 6500 sambærilegir samningar eru í óvissu vegna dómsins og ljóst að milljarðar eru í húfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×