Íslenski boltinn

Kristján: Alvöru karlmenn í þessum liðum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Anton
„Í stigasöfnuninni eru þetta mjög góð þrjú stig og gerir tvo síðustu leikina mjög spennandi fyrir okkur," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Vals eftir 2-1 sigurinn á Þór í kvöld en Valur náði þar með FH að stigum í þriðja sæti deildarinnar en FH á leik til góða gegn Grindavík á morgun.

Valur tryggði sér sigurinn með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma. „Þetta var klárt víti. Það var bæði sparkað í hann og togað, ég sá þetta mjög vel."

Öllum leikjum dagsins var frestað til morguns og var Kristján alls ekki ósáttur við að leika í dag. „Við vildum endilega spila. Við höfum spilað við erfiðari aðstæður en þessar og það var ekkert vandamál. Það eina er þó að það hefði mátt taka ákvörðun fyrir helgi að allir leikir væru spilaðir á mánudeginum á sama tíma. En við spiluðum þetta. Það eru alvöru karlmenn í þessum liðum."

Vindurinn hafði mikil áhrif á leikinn og tókst liðunum betur upp gegn vindinum en með. „Mér fannst við vera ofan á í fyrri hálfleik á móti vindinum, þá náðum við að halda boltanum á grasinu. Það snérist aðeins í seinni hálfleik, sérstaklega um miðbik hálfleiksins. Þá tókst Þór að ná góðum skyndisóknum með því að halda boltanum á jörðinni."

Valsmenn náðu að setja pressu á Þór síðustu mínúturnar og uppskáru vítið sem skildi liðin að. „Þegar við sáum að staðan var jöfn þá náðum við að setja kraft í sóknina. Við sættum okkur ekki við eitt stig og náðum að þrýsta þessu inn í lokin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×