Íslenski boltinn

Ásmundur tekur ekki við Víkingi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis.
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis.
Ásmundur Arnarsson verður áfram þjálfari Fjölnis í 1. deildinni og mun því ekki taka við liði Víkings.

Ásmundur hafði átt í viðræðum við Víkinga eftir að Leifur Garðarsson var rekinn frá félaginu í síðustu viku.

Hann var efstur á óskalista Víkinga en segir í samtali við Vísi að það sé ekki rétt að yfirgefa Fjölni á þessum tímapunkti.

„Ég get staðfest að ég heyrði í Víkingum sem er auðvitað mikill heiður. Mér leist mjög vel á það sem þeir höfðu fram að færa. Félagið er mjög heillandi og spennandi," sagði Ásmundur.

„Þetta var erfið ákvörðun og reyndi ég að taka tillit til margra þátta. Víkingur er í úrvalsdeildinni, með öflugan leikmannahóp og góða umgörð. En það er stutt í mót og fullt af góðum hlutum í gangi í Grafarvoginum. Því fannst mér ekki rétt á þessum tímapunkti að stíga frá því verkefni."

Fjölnir varð í fjórða sæti 1. deildarinnar í fyrra og segir Ásmundur að stefnan sé að gera betur í ár. „Við vorum ekki langt frá því að fara upp í fyrra og vonandi tekst það í ár."

Andri Marteinsson, þjálfari Hauka, hefur einnig átt í viðræðum við Víkinga og þykir nú líklegastur til að taka við starfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×