Innlent

Voru á leiðinni af jöklinum þegar gosið hófst

Ótal eldingar sáust í gosmekkinum í gær. Hann sést hér frá Vatnajökli, en jeppamenn óku upp á jökulinn og komust nálægt eldstöðinni. Mynd/jón ólafur magnússon
Ótal eldingar sáust í gosmekkinum í gær. Hann sést hér frá Vatnajökli, en jeppamenn óku upp á jökulinn og komust nálægt eldstöðinni. Mynd/jón ólafur magnússon
Félagar úr fjallaklúbbnum 24x24 á Akureyri voru á Vatnajökli þegar gosið hófst og létu vita af því.

„Við vorum þarna tíu félagar sem vorum að ganga á Miðfellstind í Vatnajökli," segir Ragnar Sverrisson. „Við byrjuðum að labba klukkan tvö aðfaranótt laugardags og vorum á fimmtán tíma labbi. Þegar við komum niður af tindinum keyrðum við að Kirkjubæjarklaustri. Það var alveg heiðskírt og við horfðum á jökulinn þegar eitt okkar í bílnum sagði: „Sjáið þið hvíta skýið sem kemur upp úr jöklinum." Annað sagði þá að það kæmu ekki ský upp úr jöklum," segir Ragnar. Skýið hækkaði og hækkaði svo hópurinn ákvað að stoppa bílana. „Við horfðum á þetta og fórum að taka myndir og föttuðum að þetta væri gos. Svo bara biðum við og horfðum í hálftíma og sáum þetta hækka. Þetta fór mörg þúsund metra upp í loftið meðan við vorum þarna."

Hópurinn lét vita af því sem hann hafði séð þegar á Hótel Laka á Kirkjubæjarklaustri var komið, og þar var gist aðfaranótt sunnudags. „Þegar við vöknuðum klukkan átta sagði eitthvert okkar að við yrðum nú að sofa lengur því það væri enn hánótt. Þá var svo mikið myrkur að við áttuðum okkur ekki strax.

Viðar Sigmarsson var einnig í hópnum og þurfti að fara út í gærmorgun. „Bíllinn var kannski fjóra metra frá okkur og ég var bara gjörsamlega gráhærður þegar ég kom til baka. Það var aska alls staðar, maður sá ekki handa sinna skil." - þeb



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×