Innlent

Hreyfingin beðin um að verja ríkisstjórnina falli

Viðræður ríkisstjórnarinnar og Hreyfingarinnar standa enn yfir samkvæmt heimildum Vísis. Þreifingar hófust fyrir jól, en það voru þingmenn ríkisstjórnarinnar sem komu fyrst að máli við þingmenn Hreyfingarinnar. Í kjölfarið var komið á fundi á milli oddvita ríkisstjórnarinnar og þingmanna Hreyfingarinnar. Fyrsti fundur var á Þorláksmessu. Umræðuefnið var hvort Hreyfingin væri tilbúin að verja ríkisstjórnina falli kæmi til þess.

Í tilkynningu frá Hreyfingunni í dag segir að þingmennirnir hafi átt í óformlegum viðræðum við oddvita ríkisstjórnarflokkana um helstu áherslumál Hreyfingarinnar í stjórnmálum er lúta að þjóðaratkvæðagreiðslum, persónukjöri og nýrri stjórnarskrá.

Heimildir Vísis herma að Hreyfingin vilji að Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, víki úr embættum sínum náist samkomulag á milli flokkanna.

Staða Jóns hefur verið erfið, ekki síst eftir að hann vann upp á sitt einsdæmi nýtt fiskveiðistjórnarfrumvarp án aðkomu annarra þingmanna. Litið var á þetta sem trúnaðarbrest og krafan um að Jón viki sem ráðherra varð mjög hávær.

Miðað við þreifingar ríkisstjórnarinnar þá virðist hún standa á brauðfótum, sé litið til þess að ríkisstjórnin freisti nú þess að fá Hreyfinguna til þess að verja ríkisstjórnina falli.


Tengdar fréttir

Hreyfingin átti í viðræðum við ríkisstjórnina

Þingmenn Hreyfingarinnar hafa undanfarna daga átt í óformlegum viðræðum við oddvita ríkisstjórnarflokkana um helstu áherslumál Hreyfingarinnar í stjórnmálum er lúta að þjóðaratkvæðagreiðslum, persónukjöri og nýrri stjórnarskrá. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki Hreyfingarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×