Innlent

Lagði bílnum og hljóp á eftir ungum dreng

Grandaskóli í vesturbæ Reykjavíkur
Grandaskóli í vesturbæ Reykjavíkur mynd/Stefán Karlsson
Maður um þrítugt hljóp á eftir ungum dreng í nágrenni við Grandaskóla í Reykjavík í fyrradag.

Í bréfi lögreglunnar til aðstoðarskólastjóra Grandaskóla, sem fréttastofa hefur undir höndum, segir að drengurinn hafi verið á gangi við leikskólann Gullborg þegar maðurinn kom út úr rauðum bíl sem lagt var á Rekagranda við leikskólann. Samkvæmt drengnum var hann klæddur í rauða hettupeysu, svarthærður með svarta skeggbrodda. Maðurinn gekk á eftir drengnum sem varð skelkaður og byrjaði að hlaupa af stað. Maðurinn hafi þá hlaupið á eftir drengnum, að göngustíg í Seilugranda þar sem hann hafi hætt eftirförinni.

Lögreglan segir að ekki sé vitað hvað manninum gekk til þar sem hann sagði ekkert við drenginn. Ekki sé hægt að fullyrða hvort að maðurinn hafi ætlað að tæla drenginn upp í umræddan bíl. Atvikið var tilkynnt til lögreglunnar sem hóf strax að leita í hverfinu og verður eftirlitið í vesturbænum hert næstu daga.

Bréf var sent á foreldra á svæðinu þar sem fólk er beðið um að láta lögreglu vita af grunsamlegum mannaferðum í og við skólann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×