Innlent

Dóri laus af strandstað

Björgunarskip Landsbjargar náði fyrir stundu að draga fiskibátnum Dóra GK af strandstað í fjörunni á Stöðvarfirði, þar sem hann strandaði upp úr klukkan eitt í nótt. Ljóst er að hann er nokkuð skemmdur.

Björgunarsveitir á Austurlandi voru strax kallaðar út eftir að Dóri GK,  sem er 12 tonn að stærð með fjóra menn í áhöfn, strandaði. Björgunarskip og harðbotna björgunarbátar, auk sveita á landi voru send á vettvang og var reynt að draga bátinn á flot í nótt, en það tókst ekki.

Gott veður er á svæðinu og á flóðinu upp úr klukkan ellefu, náðist hann á flot. Gert er ráð  fyrir að hann verði dreginn til hafnar á Stöðvarfirði.

Sjór er í lest og vélarrúmi bátsins þannig að ljóst er að skemmdir eru töluverðar. Fyrr um kvöldið hafði borist útkall frá litlum fiskibáti sem strandaði í sunnanverðum Fáskrúðsfirði. Skipverjum þar tókst að koma honum aftur á flot og sigldi báturinn til hafnar fyrir eigin vélarafli, en bátur Landsbjargar fylgdi honum til öryggis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×