Innlent

Græna orkan afhendir ráðuneytinu skýrslu um orkuskipti

Verkefnisstjórn Grænu orkunnar afhenti í dag iðnaðarráðuneytinu skýrslu um það hvernig best verði staðið að orkuskiptum í samgöngum. Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri  tók við skýrslunni grænu frá Sverri Hauki Viðarssyni, formanni verkefnisstjórnar Grænu orkunnar.

„Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að árið 2020 komi 10% þeirrar orku sem notuð er í samgöngutækjum frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta er metnaðarfullt markmið í ljósi þess að hlutfall vistvænna ökutækja í dag er aðeins 0,35%,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu af þessu tilefni.

„Í skýrslu Grænu orkunnar er m.a. sett fram tímasett aðgerðaáætlun með skilgreindum ábyrgðaraðilum og árangursmælikvörðum.  Aðgerðirnar spanna allan feril orkuskipta; frá framleiðslu, í gegnum dreifingu um innviði og til endanotanda. Í skýrslunni er greining á núverandi laga- og skattaumhverfi og settar fram  tillögur í skattamálum sem eiga að hvetja til orkuskipta,“ segir einnig.

Þá segir að í skýrslunni sé fjallað um mikivægi aukinnar samvinnu þeirra sem koma að þróunarverkefnum á þessu sviði og áhersla lögð á að hið opinbera sýni gott fordæmi, t.d. með því að setja fram stefnu um innkaup sem styður við orkuskipti. „Jafnframt er skýrslan upplýsingabrunnur um endurnýjanlega orkugjafa, skuldbindingar  Íslands á alþjóðavettvangi og stefnumörkun stjórnvalda á undangengnum árum.“

Að mati Grænu orkunnar eru ýmis ljón á veginum sem mögulega geta hægt á orkuskiptum og má í því samhengi nefna hátt verð á  vistvænum ökutækjum, hæga endurnýjun bílaflotans, skorti á innviðum og óvissu um hvaða orkugjafi/ar verði ofan á. „Lögð er áhersla á að stjórnvöld styðji vel við þróunina á fyrstu stigum orkuskipta.  Liður í því er að tryggja að tímabil ívilnana verði til ákveðins langs tíma svo dregið verði úr óvissu þeirra sem taka þátt í uppbyggingu orkuskipta. Því er lögð fram tillaga um að ívilnanir á sviði orkuskipta komi ekki til endurskoðunar fyrr en í fyrsta lagi árið 2020. Komi þessi aðgerðaáætlun til framkvæmda er stigið stórt skref með stefnumótun á sviði orkuskipta hér á landi.“

Verkefnisstjórnin var skipuð fulltrúum ráðuneytis fjármála-, iðnaðar-, umhverfis- og innanríkisráðuneytis ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samorku, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandsins og Félagi íslenskra bifreiðaeigenda.

Skýrslan liggur frammi á nýjum vef Grænu orkunnar grænaorkan.is þar sem finna má margvíslegan fróðleik og reiknivélar um orkueyðslu og kostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×