Innlent

Bera kennsl á börnin og bjarga þeim

Íslenskir lögreglumenn hafa frá og með morgundeginum aðgang að alþjóðlegum gagnagrunni Interpol með myndum af börnum sem hafa verið misnotuð kynferðislega. Markmiðið er að bera kennsl á börnin og bjarga þeim.

Gagnagrunnurinn var tekinn í notkun árið 2001 og frá þeim tíma hefur alþjóðalögreglunni tekist að bera kennsl á tæplega tvöþúsundogfimmhundruð börn um allan heim. Þegar tengjast ríflega þrjátíu lönd þessum gagnagrunni.

Þessa dagana eru þrír íslenskir lögreglumenn í þjálfun hjá sérfræðingi Interpol til að læra á gagnagrunninn.

„Það að Ísland hefur gert ráðstafanir til eftirlits á þessu sviði glæpa eru góðar fréttir fyrir börn á Íslandi," segir Uri Sadeh, verkefnisstjóri hjá Interpol.

Strangar öryggisreglur gilda um vinnu með gagnagrunninn og fær enginn aðgang að honum hér á landi nema þeir einstaklingar sem hljóta til þess þjálfun.

„Við tökum þátt með því að fara yfir þær myndir sem við fáum frá Interpol og einnig þær myndir sem við leggjum hald á hér, sem eru þá af íslenskum börnum, að við sendum þeim til að athuga hvort þær myndir væru komnar í dreifingu," segir Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í dag kom fram að Interpol hefur öflugt eftirlit með vefsíðum sem gera út á ofbeldi gegn börnum. Sadeh tók dæmi af ákveðinni síðu sem hefði fengið um 16 þúsund gesti víðs vegar um heiminn á einni klukkustund. IP-tölur sýndu að Íslendingar voru meðal þeirra sem skoðuðu síðuna.

„Sambandi verður komið á frá og með morgundeginum og þeir hafa öðlast hæfni til starfa. Ég er viss um að grunnurinn muni stuðla að því að borin verði kennsl á fórnarlömb á Íslandi," segir Uri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×