Innlent

Jónas heiðursborgari Kópavogs

Bæjarstjórn Kópavogs ákvað á fundi sínum í kvöld að gera Jónas Ingimundarson píanóleikara að heiðursborgara Kópavogs
Bæjarstjórn Kópavogs ákvað á fundi sínum í kvöld að gera Jónas Ingimundarson píanóleikara að heiðursborgara Kópavogs mynd/Kópavogsbær
Bæjarstjórn Kópavogs ákvað á fundi sínum í kvöld að gera Jónas Ingimundarson píanóleikara að heiðursborgara Kópavogs. Með því vill bæjarstjórn sýna honum þakklæti fyrir ómetanlegt starf í þágu tónlistar, menningar og tónlistaruppeldis, segir í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Í tilkynningunni segir jafnframt að Jónas hafi frá árinu 1994 starfað sem tónlistarráðunautur Kópavogs og hafi verið einn helsti hvatamaður þess að Salurinn, tónlistarhús Kópavogs var byggt, en það var vígt í janúar 1999. Hann er fjórði heiðursborgari bæjarins.  

„Jónas Ingimundarson hefur unnið ómetanlegt starf í þágu tónlistar og menntunar í Kópavogi," segir Hjálmar Hjálmarsson, forseti bæjarstjórnar Kópavogs í tilkynningu. „Dugnaður Jónasar, hæfileikar og listfengi hefur skapað honum nafn sem eins fremsta tónlistarmanns okkar Íslendinga."  

„Jónas er fæddur á Bergþórshvoli í Vestur-Landeyjum í Rangárvallasýslu 30. maí 1944. Hann hóf tónlistarnám sitt eftir fermingu hjá frú Leopoldínu Eiríks en árin þar á eftir stundaði hann tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og framhalsnám við Tónlistarskólann í Vínarborg. Hann lék á sínum fyrstu opinberu tónleikum árið 1967 en síðan þá hefur hann haldið fjölda tónleika hér heima sem og erlendis.

 

Jónas skipulagði á sínum tíma að eigin frumkvæði skólatónleika með fjölda listamanna í Kópavogi, á Akranesi og á Selfossi en það starf leiddi til verkefnisins „Tónlist fyrir alla" sem hefur vakið mikla og jákvæða athygli.  Jónas var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 1994 og Dannebrog orðunni árið 1996.

Hann hefur einnig hlotið heiðursverðlaun VÍS, Íslandsbanka og DV og þá hlaut hann heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna er þau voru í fyrsta sinn veitt árið 2001.  Þrír Kópavogsbúar hafa áður verið gerðir heiðursborgararar í bænum, hjónin Finnbogi Rútur Valdemarsson og Hulda Jakobsdóttir, fyrrverandi bæjarstjórar, árið 1976 og Sigfús Halldórsson tónskáld árið 1994,“ segir í tilkynningunni.

Bæjarstjórn hyggst heiðra Jónas Ingimundarson með móttöku í Salnum 4. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×