Innlent

Ungbarnadauði síst vandamál á Íslandi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ungabörnum virðist reiða einna best af á Íslandi.
Ungabörnum virðist reiða einna best af á Íslandi. mynd/ Getty
Tíðni ungbarnadauða var lægst á Íslandi af öllum ríkjum árið 2009. Þetta kemur fram í nýju riti Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Hér á landi lést sem samsvarar 1,8 af 1.000 fæddum börnum. Meðaltal OECD landa var 4,4 börn en var 30 árið 1970.  Börn með lága fæðingarþyngd (undir 2.500 grömmum) voru einnig hlutfallslega fæst hér á landi árið 2009 en 4,1 % nýfæddra barna voru í þeim hópi samanborið við 6,7% að meðaltali í OECD-ríkjum.

Í nýju riti Efnahags- og framfarastofnunarinnar „Health at a Glance 2011, OECD indicators" er að finna margvíslegar upplýsingar um heilbrigðismál í  aðildarríkjum stofnunarinnar sem nú eru 34 talsins. Ritið skiptist í átta kafla sem fjalla um heilbrigðisástand, áhrifaþætti heilbrigðis aðra en læknisfræðilega, mannafla, starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, gæði, aðgengi, heilbrigðisútgjöld og fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar svo og þjónustu við aldraða og langveika.

Þar kemur fram að fjórir af hverjum fimm fullorðnum á Íslandi töldu sig vera við góða heilsu árið 2009 í samanburði við 69% fullorðinna í ríkjum OECD að meðaltali. Árið 2009 var meðalævilengd á Íslandi 81,5 ár en í sex ríkjum OECD var hún lengri. Lífslíkur íslenskra karla við fæðingu voru 79,7 ár, aðeins lægri en í Sviss þar sem þær voru hæstar. Lífslíkur kvenna á Íslandi voru 83,3 ár eða í 11. sæti OECD landa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×