Innlent

Árni Johnsen: Byggingu Þorláksbúðar haldið áfram

Mynd/Pjetur
Haldið verður áfram við byggingu Þorláksbúðar í Skálholti en skyndifriðun húsafriðunarnefndar á Skálholti var synjað af menntamálaráðherra í gær. Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála hefur borist kæra vegna byggingaleyfis Þorláksbúðarfélagsins.

Húsafriðunarnefnd ákvað í byrjun þessa mánaðar að grípa til skyndifriðunar á Skálholtsskóla, Skálholtskirkju og nánasta umhverfis og var það álit nefndarinnar að ekki mætti rjúfa opna svæðið á milli þessa bygginga með endurbygginu Þorláksbúðar. Menntamálaráðherra þarf að samþykkja skyndifriðun innan tveggja vikna en í gær ákvað hún að synja friðuninni og vill að nefndin taki málið upp að nýju.

Í samtali við fréttastofu sagði Nikulás Úlfar Másson forstöðumaður húsafriðunarnefndar að ákvörðun ráðherra væri viss vonbrigði og í henni fái lögformleg atriði að njóta vafans en ekki byggingarlistin.

Ættingjar Harðar Bjarnasonar, arkitekts Skáholtskirkju, hafa hins vegar kært byggingaleyfi Þorláksbúðar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingamála, þar sem þeir telja leyfið ólöglegt og deiliskipulag heimili ekki framkvæmdina. Hjalti Steinþórsson forstöðumaður úrskurðarnefndarinnar sagði í samtali við fréttastofu í morgun að nefndin þurfi nú að afla gagna og ákveða hvort kæran verði tekin fyrir og þá hvort gripið verði til stöðvunar á framkvæmdum. Slíkt geti tekið nokkurn tíma en hann segir að málinu verði hraðað í meðferð nefndarinnar og vonast eftir endanlegri niðurstöðu fyrir jól.

Framkvæmdir við Þorláksbúð hafa legið niðri síðan að svæðið var skyndifriðað en Árni Johnsen formaður Þorláksbúðarfélagsins sagði í samtali við fréttastofu í morgun að nú verði haldið áfram. Hann segir bygginguna vera á lokahnykknum og einungis rúm vika eftir af framkvæmdum ef vel viðrar. Þá er hann óhræddur við að úrskurðarnefndin reyni að stöðva hann að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×