Innlent

Hafnfirskir unglingar gátu keypt tóbak á fjórum stöðum

Ný könnun sem gerð var á tóbakssölustöðum í Hafnarfirði leiddi í ljós að unglingar gátu keypt sér tóbak á fjórum stöðum af þeim nítján sem kannaðir voru eða á um 20 prósent staðanna. Forvarnafulltrúi Hafnarfjarðar stendur reglulega fyrir könnun af þessu tagi og nú fóru tveir unglingar úr 10. bekk á sölustaði undir eftirliti starfsmanna Hafnarfjarðarbæjar og reyndu að kaupa sígarettur.

„Ekki var farið inn á staði með vínveitingaleyfi þar sem tóbak er selt,“ segir í tilkynningu. „Frekari upplýsingar úr könnuninni eru sendar Heilbrigðiseftirliti Kópavogs- og Hafnarfjarðarsvæðisins þar sem unnið verður úr þeim eins og lög gera ráð fyrir. Sölustöðunum er seldu börnunum tóbak verður einnig send ábending frá forvarnarfulltrúa. Búast má við því að þeir staðir sem seldu börnum tóbak fái áminningu frá heilbrigðiseftirliti eins og kveður á um í lögum um tóbaksvarnir.“

„Síðustu misseri hafa söluaðilar sett sér stöðugt skýrari reglur sem tryggja að aldurstakmörk séu virt. Hafnarfjarðarbær hefur aukið tíðni kannana og veitt sölustöðum stöðugt aðhald. Meirihluti sölustaða í Hafnarfirði hefur gert sérstakt samkomulag við forvarnafulltrúann sem miðar að því að leita allra leiða til að koma í veg fyrir sölu tóbaks til barna. Í síðustu könnununum hafa komið svipaðar niðurstöður og nú en markmiðið er að engin sölustaður selji börnum tóbak. Því mun forvarnafulltrúi í umboði Fjölskylduráðs Hafnarfjarðar halda áfram með þessar kannanir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×