Innlent

Grunaðir um að hafa lokkað konu upp í bíl og nauðgað henni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tveir menn sitja í gæsluvarðhaldi, grunaðir um að hafa nauðgað konu við Reykjavíkurflugvöll þann 16. október síðastliðinn. Hæstiréttur staðfesti í dag framlengt gæsluvarðhald yfir mönnunum til 16. desember næstkomandi.

Mennirnir eru grunaðir um að hafa að morgni sunnudagsins 16. október tekið konuna upp í bílinn við Laugaveg í Reykjavík, ekið með hana að Reykjavíkurflugvelli og þar þröngvað henni með ofbeldi til holdlegs samræðis.

Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að konan reyndi að telja mönnunum trú um að hún væri smituð af HIV í þeim tilgangi að fá þá til að hætta. Þá hafi hún einnig sagst hafa öskrað en þegar hún hafi gert það hafi ökumaðurinn tekið hana hálstaki og lamið hana í höfuðið.

Þegar Hæstiréttur úrskurðaði um málið skilaði Jón Steinar Gunnlaugsson sérákvæði og taldi að í ljósi þess hve dregist hefði að gefa út ákæru í málinu ættu þeir ekki að sæta gæsluvarðhaldi. Hann mælti með því að mennirnir sættu frekar farbanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×