Innlent

Tölvur lítið notaðar í kennslustofunni

Tölvur eru aðeins notaðar í tíu prósent kennslustunda í grunnskólum og tækjabúnaði skólanna hefur hrakað á síðustu árum. Lektor á menntavísindasviði við Háskóla Íslands segir kreppuna hafa bitnað helst á kaupum á tækjabúnaði.

Síðustu þrjú ár hefur staðið yfir viðamikil rannsókn á starfsháttum grunnskólanna. Farið var í tuttugu skóla. Aðstæður voru skoðaðar, fylgst var með kennslu og kannanir gerðar meðal kennara. Fyrstu niðurstöður sýna að þrátt fyrir að tækni skapi sífellt stærri sess í lífi okkar þá er hún lítið nýtt í grunnskólum.

„Það sem við kannski höfum svolitlar áhyggjur af er nýting á tölvu- og upplýsingatækni. Hún virðist vera mjög lítil. Einugis um tíu prósent kennslustunda þar sem tölva var nýtt og í lang, lang fæstum skólastofum eru tölvur sem eru ætlaðar nemendum," segir Anna Kristín Sigurðardóttir lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Þannig er oft aðeins ein tölva í skólastofum sem aðeins er ætluð fyrir kennara. Þá segir Anna Kristín rannsóknina sýna að tækjakostur skólanna sé oft úreldur og dæmi séu um að margar tölvur hafi verið bilaðar inni í tölvustofum skólanna. „Það virðist sem svo að kreppan, svokallaða, hafi bitnað helst á kaupum á tækjabúnaði. Tölvum, skjávörpum og fleiru slíku. Við erum mjög fljót að dragast aftur úr það þarf ekki nema tvö þrjú ár."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×