Innlent

Norsku lærin duga í hangikjötið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Íslendingar búsettir í Noregi, sem hvorki vilja sleppa hangikjöti né sviðahausum, deyja ekki ráðalausir. Þeir einfaldlega reykja norsk lambalæri útí skógi og svíða norska kindahausa.

Hangikjöt með uppstúf er maturinn sem Gunnar Karl Garðarsson frá Bíldudal býður gestum frá Íslandi. Vandi Gunnars Karls er sá að á svæðinu sem hann býr á í Norður-Noregi, á litlum sveitabæ á Hálogalandi, hefur hann hvergi fundið búð sem selur hangikjöt.

En björgin er ekki fjarri, Norðmenn eiga jú líka sauðfé, og Vestfirðingurinn dó ekki ráðalaus heldur útbjó sinn eigin reykofn útí í skógarrjóðri.

Gunnar Karl segist nota tað, eini og birki til að reykja hangikjötið. Reykinn leiðir hann upp í gamla grænmálaða frystikistu, sem nú gegnir hlutverki reykhúss. Þar sýnir hann okkur tvö nýreykt lambalæri, - ekki af íslensku, - heldur af norsku fé, og segir norska lambakjötið ekki síðra. Honum finnst norsku lambalærin ívíð stærri en þau íslensku en segir bragðið það sama.

Spurður hvort það sé þá rangt, sem stundum er haldið fram, að íslenska lambakjötið sé það besta, segir Gunnar Karl að hann finni engan mun á norsku og íslensku lambakjöti og skipti þá ekki máli hvaða matreiðsluaðferð sé notuð.

Og norskir kindahausar enda líka sem sviðahausar á heimili Íslendingsins.

Í Noregi er ekkert heitt vatn í jörðu og Íslendingurinn sem vill sinn heita pott smíðar þá bara réttu græjurnar. Gunnar Karl notar gamalt ker úr ígulkerjarækt fyrir pott og við hliðina er hann búinn að útbúa ofn með spíral í. Hann kyndir upp með því að brenna við, hitar þannig upp kalt vatn og notar svo gamla þvottavélardælu til að búa til hringrás milli heita pottsins og spíralsins.

-Þannig að Íslendingurinn getur ekki verið án heita pottsins í Noregi?

,,Nei, það gengur ekki," svarar Gunnar Karl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×