Fótbolti

Trapattoni: Ég er ekki guð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giovanni Trapattoni
Giovanni Trapattoni Mynd/Nordic Photos/Getty
Írar eru í skýjunum eftir 4-0 útisigur á Eistum í gær í fyrri umspilsleik þjóðanna um sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins í Úkraínu og Póllandi sem fer fram næsta sumar. Írland er svo gott sem búið að tryggja sér sæti á EM.

Ítalinn Giovanni Trapattoni hefur unnið frábært starf með írska landsliðið og er hreinlega kominn í guðatölu hjá írsku þjóðinni. Robbie Keane skoraði tvö mörk í sigrinum á Eistum en hin mörkin skoruðu þeir Keith Andrews og Jonathan Walters.

„Ég er ekki guð. Ég tala ekki ensku nógu vel og ég geri líka mistök," sagði Giovanni Trapattoni í léttum tón eftir leikinn.  

„Ég hef samt verið í kringum fótbolta í 30 ár og ég held að ég sé farinn að skilja hann ágætlega," bætti þessi 72 ára gamli Ítali við.

„Það verður mikilvægt að undirstrika þessi úrslit í seinni leiknum á Írlandi. Það eru enn 90 mínútur eftir og við verðum að bera virðingu fyrir mótherjum okkar. Þeir koma með annað hugfar í þann leik og munu örugglega spila mun betur. Við verðum að endurtaka þessa frammistöðu," sagði Trapattoni sem hefur þjálfað írska landsliðið frá árinu 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×