Fótbolti

Trapattoni: Við getum gert eins og Grikkir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Trapattoni og Robbie Keane fagna sigrinum í gær.
Trapattoni og Robbie Keane fagna sigrinum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Giovanni Trapattoni er þjóðhetja á Írlandi eftir að hafa komið landsliðinu á sitt fyrsta stórmót í áratug. Írar unnu 5-1 samanlagðan sigur á Eistlendingum í umspili fyrir EM 2012 í Póllandi og Úkraínu á næsta ári.

Trapattoni tók við landsliðinu árið 2008 en þessi 72 ára Ítali á langan feril að baki. Hann hefur til að mynda unnið sex meistaratitla með Juventus og nokkra Evrópumeistaratitla.

„Ég vona að við sleppum við leikbönn og meiðsli," sagði Trapattoni eftir leikinn í gær. „Það væri frábært að hafa úr sem stærstum hópi leikmanna að velja en það er mikilvægt að við höfum sterkan grunn leikmanna."

Grikkir urðu Evrópumeistarar árið 2004 og segir Trapattoni að Írar geti vel leikið þann leik eftir.

„Það er ljóst að með þessum hópi leikmanna er allt hægt. Af hverju að gera ekki eins og Grikkir? Það eru ekki draumórar."

Trapattoni þarf nú að fara í viðræður um nýjan samning við knattspyrnusamband Írlands en hann er áhugasamur um að stýra liðinu til 2014. Hann var áður landsliðsþjálfari Ítala frá 2000 til 2004 en naut ekki mikillar velgengni þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×