Fótbolti

Sölvi Geir: Þetta var ömurleg sending

"Sem varnarmaður þá get ég ekki verið sáttur við fáum á okkur fimm mörk," sagði Sölvi Geir Ottesen fyrirliði íslenska landsliðsins eftir 5-3 tapleikinn gegn Portúgal í kvöld í viðtali við Guðmund Benediktsson á Stöð 2 sport.

„Við erum að spila gegn einu sterkasta sóknarliði í heimi og þeir nýttu færin sín vel. Þeir voru að skora alveg út við stöng en ef lukkudísirnar hefðu verið með okkur þá hefðum við komist yfir í leiknum," sagði Sölvi en hann átti góðan skalla að marki heimamanna strax í upphafi leiksins sem markvörðurinn varði. „Við hefðum kannski getað fengið mark út úr því og síðan fékk Haddi (Hallgrímur Jónasson) færi stuttu eftir það. Leikurinn hefði kannski orðið allt öðruvísi ef við hefðum skorað úr þessum færum. Á heildina litið getum við verið þokkalega sáttir.

Sölvi gerði mistök í varnarleiknum þegar hann ætlaði að senda boltann á Stefán Loga Magnússon markvörð á 21. mínútu. Nani náði að komast inn í sendinguna og skoraði hann þar með sitt annað mark í leiknum. „Þetta var skelfileg sending. Ég sá að Stefán og Kristján (Sigurðsson) voru þarna aleinir. Ég sendi utanfótar en boltinn fór akkúrat á milli þeirra. Þetta segir kannski allt um leikinn, heppnin var kannski aðeins meira þeirra meginn en þeir áttu líklega sigurinn skilið.

Sölvi lagði upp tvö fyrstu mörk Íslands sem Hallgrímur Jónasson skoraði en Sölvi vann nánast alla skallabolta í vítateig Portúgals. „Það gekk vel og varnarmaðurinn átti í vandræðum með mig. Við getum borið höfuðið hátt en við sögðum það í hálfleik að við ætluðum að vinna síðari hálfleikinn og það gerðum við. Líkt og aðrir landsliðsmenn Íslands sagði Sölvi fátt um væntanleg þjálfaraskipti Íslands. „Ég kann sænsku en það er sama hver kemur þá er efniviðurinn til staðar og ég vona bara að hann fari vel með það sem hann fær í hendurnar," sagði Sölvi Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×