Fótbolti

Kolbeinn: Frábært að skora fyrsta markið í alvöru landsleik

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Það er gríðarlega ánægjulegt að vera loksins komnir með fyrsta sigurinn í hendurnar," sagði Kolbeinn Sigþórsson, leikmaður Íslands, eftir leikinn.

„Það var mikill léttir þegar þetta var komið í hús og það sást á mönnum inn í klefa. Það hefur ekki gengið vel undanfarna mánuði og úrslitin hafa ekki verið góð. Liðið hefur verið að hrapa niður styrkleikalistann og því var þessi sigur gríðarlega mikilvægur".

„Það hefur verið heldur neikvæð umræða í kringum landsliðið og vonandi náðum við að breyta því í kvöld".

„Það er alltaf gaman að skora og sérstaklega fyrir landsliðið, þetta var mitt fyrsta mark fyrir íslenska landsliðið í alvöru leik og það er góð tilfinning".

Kolbeinn Sigþórsson leikur með hollenska liðinu Ajax en hann mun hefja mikið ævintýri í næstu viku þegar lið hans hefur leik í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

„Þetta verður frábært og það verður virkilega gaman að kljást við þessi stóru lið, en við setjum markið hátt og ætlum okkur upp úr riðlinu," sagði Kolbeinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×