Enski boltinn

Phil Jones í landsliðsúrtakinu - Beckham ekki valinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Phil Jones á æfingu enska U-21 liðsins í sumar.
Phil Jones á æfingu enska U-21 liðsins í sumar. Nordic Photos / Getty Images
Fabio Capello, þjálfari enska landsliðsins, hefur valið 30 leikmenn fyrir vináttulandsleik Englands gegn Hollandi á miðvikudaginn næsta. Capello mun svo velja 23 manna lokahóp um helgina.

Jones er aðeins nítján ára gamall og lék sitt fyrsta tímabil í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð með Blackburn. Hann var svo keyptur til Manchester United í sumar fyrir sautján milljónir punda.

Val Capello er ekki opinbert heldur hefur enska knattspyrnusambandið sett sig í samband við viðkomandi leikmenn og félög þeirra og tilkynnt þeim um valið.

„Þetta hefur allt gerst svo fljótt,“ sagði Jones við enska fjölmiðla. „Ég er nítján ára gamall og átti ekki von á því að komast í landsliðið svo ungur.“

Samkvæmt enskum fjölmiðlum er David Beckham ekki í hópnum en hann hefur þótt standa sig vel að undanförnu með liði sínu, LA Galaxy.

Capello mun hafa heillast af frammistöðu Jones með U-21 liði Englands á EM í Danmörku í sumar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×