Innlent

Ekki hægt að detta í það á barnum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bláa lónið hóf þá nýbreytni í fyrra að bjóða upp á veitingasölu í miðju lóninu.
Bláa lónið hóf þá nýbreytni í fyrra að bjóða upp á veitingasölu í miðju lóninu.
Barsala í Bláa lóninu mælist vel fyrir, segir Dagný Hrönn Pétursdóttir framkvæmdastjóri. Lítill bar var settur upp í miðju lóninu í fyrravor, en þar eru seldir áfengir og óáfengir drykkir auk húðvara.

Veitingasalan fer þannig fram að gestir í lóninu fá armband þegar þeir fara ofan í. Þeir geta síðan greitt fyrir bjór eða aðrar veitingar með armbandinu. „Við erum búin að vera með veitingasölu lengi og erum að setja upp strúktúr sem hentar vel," segir Dagný um nýja barinn.

Dagný segir að fyllsta öryggis sé gætt og að það sé ekki hægt að detta í það í Bláa lóninu. „Þú borgar með armbandi og getur bara keypt ákveðið marga drykki þannig að þú ert ekkert á fylleríi hérna. Þú getur bara keypt einn eða tvo en svo stoppar armbandið þitt þig," segir Dagný. Dagný bendir á að starfsmenn Bláa lónsins séu að auki með áfengismæla bæði í móttöku og úti á bar, „Við tökum mjög hart á öllum málum. Hugmyndin er ekki að þetta sé einhversstaðar þar sem þú getur fengið þér vel í glas," segir Dagný.

Dagný segir líka að það sé passað vel upp á að ungmenni undir lögaldri kaupi ekki áfengi á barnum. Þau fái til dæmis armband með öðruvísi lit en þeir sem eru yfir tvítugu. Viðkomandi sé auk þess spurður um skilríki ef hann sýnist vera undir lögaldri. „Þetta er í sjálfu sér ekkert öðruvísi en á öðrum bar," segir Dagný. Hún fullyrðir að starfsfólk Bláa lónsins taki öryggismál mjög alvarlega og sé mjög framarlega í þeim málum.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.