Innlent

Innanríkisráðherra svarar biskupi

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. Mynd/Pjetur
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur svarað bréfi sem ritað var af lögmanni fyrir hönd biskups kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Ögmundur leiðréttir í bréfi sínu misskilning í bréfi kaþólsku kirkjunnar en þar sagði að dregist hefði að senda kirkjunni gögn frá ráðuneytinu sem vörðuðu meint gróf lögbrot af hálfu þjóna kirkjunnar og stofnana hennar á skjólstæðingum sínum. Frá þessu er greint á vef innanríkisráðuneytisins.

Bréfaskiptin áttu sér stað í framhaldi af fundi sem biskupinn sat með Ögmundi og fleiri fulltrúum innanríkisráðuneytisins. Einstaklingar höfðu leitað til ráðherrans og greint frá eigin reynslu af stofnunum kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. ,,Framferði það sem þjónar kirkjunnar virðast hafa haft í frammi gagnvart skjólstæðingum sínum felur í sér gróf lögbrot og vísaði ég þessum einstaklingum því til lögreglu," segir í bréfi ráðherra.

Á fundinum gerði ráðherra biskupnum grein fyrir þeim upplýsingum sem honum höfðu borist og vísaði til lögregluskýrslu þar sem rakin var reynsla fyrrnefndra brotaþola. Skýrsluna hafði ráðherra á fundinum með samþykki viðkomandi einstaklinga. Hvorki biskup né lögmaður hans óskuðu eftir því að fá lögregluskýrsluna í hendur.

Í bréfi biskups til ráðherra segir: „Reyndar var um það rætt á fyrrnefndum fundi með ráðherra að lögmanni Kaþólsku kirkjunnar yrði sendar upplýsingar sem ekki hafa enn borist." Ráðherra segir í bréfi sínu að þessi útlegging sé ekki í samræmi við það sem fram hafi farið á fundinum. Þar hafi biskupi verið gert ljóst að kirkjan gæti óskað formlega eftir afritum af lögregluskýrslunum frá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Slík ósk hafi hins vegar aldrei verið sett fram.

Þá segir ráðherra það sæta furðu, í ljósi þess hve alvarlega atburði sé um að ræða, að Kaþólska kirkjan skuli ekki hafa gengið fast eftir því að fá öll gögn í hendur til skoðunar þegar í stað og hefja sjálfstæða rannsókn á málinu, með það að leiðarljósi að upplýsa málið eftir fremsta megni og mæta þeim einstaklingum sem hafi verið beittir órétti af hálfu kirkjunnar þjóna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×