Fótbolti

Stuðningurinn á heimavelli frábær

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Danskir stuðningsmenn á góðri stundu
Danskir stuðningsmenn á góðri stundu Mynd/Getty Images
Sóknarmaðurinn Niki Bille Nielsen segir að danska U-21 landsliðið hafi verið vel stutt í síðustu æfingaleikjum sínum fyrir mótið í Danmörku í sumar.

Danmörk og Ísland eru saman í riðli í keppninni og mætast í lokaumferð riðlakeppninnar, þann 18. júní í Álaborg.

„Það hafa verið um tíu þúsund stuðningsmenn á síðustu leikjum okkar, þrátt fyrir að það voru bara vináttuleikir,“ sagði Nielsen í samtali við heimasíðu UEFA.

„Það var frábært að finna fyrir stuðningnum og ég hlakka mikið til að spila á sjálfu mótinu. Við erum lítil þjóð með aðeins fimm milljón íbúa og ótrúlegt hversu mikinn stuðning U-21 liðið fær.“

Nielsen skoraði tvívegis þegar að Danir unnu 4-0 sigur á Tyrkjum um helgina og telur að Spánverjar muni ná langt í mótinu.

„Spánverjar eru sigurstranglegastir. A-liðið þeirra er ríkjandi heims- og Evrópumeistari og því vill U-21 liðið ekkert annað en sigur, komast á Ólympíuleikana og vinna þá líka.“

„En það skyldi enginn vanmeta danska liðið,“ sagði Nielsen að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×