Fótbolti

Eyjólfur: Við erum á tánum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari íslenska U-21 liðsins á von á erfiðum leik gegn Hvíta-Rússslandi í dag.

Leikurinn er sá fyrsti á Evrópumeistaramótinu í Danmörku og fer fram í Árósum. Leikurinn hefst klukkan 16.00.

„Hvít-Rússar voru með síðast þegar EM fór fram og slógu út Ítali í umspilinu fyrir þessa úrslitakeppni en Ítalir voru taldir mjög sigurstranlegir þar,“ sagði Eyjólfur en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Þetta verður erfiður leikur og við verðum að vera á tánum ef við ætlum okkur sigur - sem við ætlum okkur. Við förum í alla leiki til að vinna og svo sjáum við hvað setur.“

Hvít-Rússar misstu einn sinn helsta markaskorara í meiðsli skömmu fyrir mót og segir Eyjólfur að það muni ekki endilega breyta miklu.

„Þeir eru með sex mjög góða sóknarmenn og það kemur nýr maður inn í staðinn. Við megum ekki vanmeta þá neitt.“

„Fyrst og fremst snýst þetta um að við séum klárir í slaginn. Við erum að einbeita okkur að því núna.“

Líklegt er að róðurinn verði þungur fyrir Ísland ef leikurin tapast í dag. „Við höfum þrjá leiki til að komast upp úr riðlinum og er það markmiðið. Þetta er fyrsta hindrunin sem við þurfum að standast.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×