Fótbolti

Norðurlandaþjóð aldrei sigrað á U21 mótinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Larsson var í U-21 landsliði Svía sem tapaði úrslitaleiknum árið 1992
Larsson var í U-21 landsliði Svía sem tapaði úrslitaleiknum árið 1992 Mynd/Getty Images
Norðurlandaþjóð hefur aldrei staðið upp sem sigurvegari á Evrópumóti U21-landsliða. Keppnin hefur verið haldin á tveggja ára fresti frá árinu 1978. Besta árangrinum náði Svíþjóð árið 1992.

Ítalir hafa oftast staðið uppi sem sigurvegarar á mótinu eða fimm sinnum. Sovétríkin, Spánn, England og Holland hafa unnið keppnina tvisvar. Keppnin hefur tekið töluverðum breytingum í gegnum árin.

Á fyrstu árum keppninnar var engin lokakeppni. Sigurvegarar riðlanna mættust í leikjum heima og heiman þar sem samanlögð úrslit úr leikjunum giltu.

Frá árinu 1994 hefur úrslitakeppnin farið fram í einu landi. Í fyrstu voru aðeins undanúrslita- og úrslitaleikir spilaðir en í keppninni 2002 voru í fysta sinn tveir fjögurra liða riðlar. Þá spiluðu efstu liðin til úrslita og liðin í öðru sæti um þriðja sætið.

Núverandi fyrirkomulag þ.e. þar sem tvö efstu liðin í hvorum riðli mætast í undanúrslitum hefur verið við lýði frá árinu 2004. Árið 2006 var ákveðið að hafa mótin á odda-töluárum. Því var keppt árið 2007 og á tveggja ára fresti síðan.

Ástæða breytingarinnar var árekstur við lokakeppni heimsmeistarakeppni og Evrópukeppni hjá A-landsliðum Evrópuþjóða. Talið er að yngri leikmenn fá frekar að láta ljós sitt skína með yngri landsliðum í núverandi fyrirkomulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×