Fótbolti

Hólmar Örn: Seinna markið var rangstaða

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Hólmar Örn Eyjólfsson, varnarmaður íslenska U-21 landsliðsins, segir að það hafi verið erfitt að horfa upp á mörkin tvö sem Ísland fékk á sig í gær.

„Gærkvöldið var svolítið erfitt,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson fyrir morgunæfingu íslenska U-21 landsliðsins í Álaborg í morgun. Ísland tapaði í gær fyrir Hvíta-Rússlandi, 2-0, í fyrsta leiknum á EM í Danmörku.

„Við gerðum meiri væntingar til leiksins en stóðum okkur samt ágætlega á köflum. Við hefðum reyndar getað gert mun betur en við erum strax byrjaðir að horfa til næsta leiks,“ bætti hann við en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Ég á von á erfiðum leik gegn Sviss. Tómas Ingi horfði á þá í gær og sagði að þeir hefðu verið hrikalega sterkir. En við ætlum að mæta þeim af fullum krafti.“

Hann segir að margt hafi verið jákvætt við varnarleik íslenska liðsins í gær. „Mér fannst við mjög góðir í fyrri hálfleik og hleyptum engu í gegn. Við hefðum getað gert betur í seinni hálfleik og þá sérstaklega í mörkunum tveimur. En ég er enn á því að seinna markið hafi verið rangstæða.“

Fyrra markið kom úr vítaspyrnu eftir að sóknarmaður Hvít-Rússa náði að koma sér fram hjá nokkrum varnarmönnum íslenska liðsins og fiska svo vítið.

„Það var nú svolítill heppnisstimpill á þessu. Boltinn fór í hælinn á mér, í hnéð aftur og lagðist fyrir hann. Síðan fór hann í gegnum einhverja tvo í viðbót og fékk vítið. Þetta var mjög leiðinlegt á að horfa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×