Fótbolti

Englendingar náðu jafntefli gegn Spánverjum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Welbeck afgreiðir hér boltann í netið í kvöld. Mynd. / Getty Images
Welbeck afgreiðir hér boltann í netið í kvöld. Mynd. / Getty Images
Spánverjar gerðu jafntefli, 1-1,  gegn Englendingum í B-riðli á Evrópumóti U-21 árs landsliða í Danmörku fyrr í kvöld.

Ander Herrera skoraði fyrsta mark leiksins eftir um korters leik, en markið var heldur betur umdeilt. Spánverjar fengu hornspyrnu sem sveif inn í vítateig Englendinga, þar var Herrera mættur og virtist stýra boltanum í netið með hendinni.

Spánverjar réðu lögum og lofum það sem eftir lifði leiks en Englendingar neituðu aftur á móti að gefast upp.

Rétt fyrir lok venjulegs leiktíma náði enski framherjinn, Danny Welbeck, að jafna metinn. Kyle Walker, leikmaður Englands, óð upp hægri kantinn, átti fína sendingu inn í teiginn á Welbeck sem afgreiddi boltann sérstaklega vel í netið.

Tékkar unnu Úkraínu fyrr í dag og eru því efstir í riðlinum með þrjú stig. Englendingar og Spánverjar koma þar á eftir með eitt stig hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×