Fótbolti

Þjálfari Sviss ætlar að hvíla menn gegn Íslandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Hér sést Pierluigi Tami, þjálfari Sviss, við hliðin á Tómasi Inga, aðstoðarþjálfara Íslands. Mynd. / Getty Images
Hér sést Pierluigi Tami, þjálfari Sviss, við hliðin á Tómasi Inga, aðstoðarþjálfara Íslands. Mynd. / Getty Images
Þjálfari U-21 liðs Sviss gaf í skyn eftir sigur sinna manna gegn Danmörku um helgina að hann muni nota leikinn gegn Íslandi á morgun til að hvíla nokkra leikmenn sem spiluðu um helgina.

 

„Í fyrsta leiknum notaði ég leikmenn sem búa yfir aðeins meiri reynslu en aðrir,“ sagði Pierluigi Tami, þjálfari Sviss. „Kannski mun ég breyta byrjunarliðinu gegn Íslandi þar sem að nokkrir leikmenn eyddu mikilli orku í leikinn á laugardaginn.“

 

Ef til vill má túlka þessi skilaboð landsliðsþjálfarans sem að hann líti á Ísland sem ekki jafn sterkan andstæðing og Danmörku. Hvort um vanmat sé að ræða skal ósagt látið en tíðindin hljóta engu að síður að teljast góð fyrir íslenska liðið. Leikurinn fer fram hér í Álaborg á morgun og hefst klukkan 16.00. Honum verður vitanlega lýst beint í Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×