Fótbolti

Eyjólfur: Með Messi-týpu á hægri kantinum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U-21 liðs Íslands, segir að leikmenn íslenska liðsins þurfi að hafa gætur á hættulegustu leikmönnum Sviss á morgun. Ísland verður að ná stigi úr leiknum til að eiga möguleika á að komast áfram upp úr sínum riðli á EM í Danmörku.

„Það var erfitt að kyngja þessu fyrsta daginn eftir tapið en þetta hefur verið að byggjast upp aftur. Menn eru ákveðnir í að sýna sitt rétta andlit á morgun eins og þeir reyndar gerðu í þessum leik. Þeir voru að spila vel og okkar plan var að ganga upp. Við vorum þolinmóðir og að skapa okkur færi sem við náðum því miður ekki að gera eins og við gerðum í allri undankeppninni," sagði Eyjólfur en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Ég held að aðalmálið fyrir leikinn á morgun er að spila á svipuðum nótum. Kannski verður leikurinn aðeins opnari þar sem að Svisslendingar vilja sækja meira á móti okkur. Þar með gæti opnast fyrir ákveðin svæði. En á móti kemur að við verðum kannski þvingaðir meira í varnarvinnuna sem gefur okkur ef til vill færi á skyndisóknum."

Svisslendingar hafa á mörgum sterkum leikmönnum að skipa, þá sérstaklega þegar að kemur að sóknarleiknum. Eyjólfur segir að sínir menn þurfi að hafa gætur á þeim.

„Við höldum okkur við okkar skipulag en að sjálfsögðu förum við nákvæmlega yfir það með strákunum hvernig leikmönnum þeir munu mæta á morgun. Á hægri kantinum er vinstrifótarmaður sem dregur sig mikið inn og er hættulegur fyrir framan markið. Þetta er Messi-týpa sem er með öflugan vinstri fót og skoraði markið á móti Dönum. Við verðum að passa hann og helst ekki hleypa honum í skotstöðu," sagði Eyjólfur en hann á þar við Xherdan Shaqiri (númer 10) sem skoraði markið í fyrsta leik liðsins. Eyjólfur talaði líka um sóknarmanninn Innocent Emeghara (númer 7).

„Svo er líka öflugur leikmaður á vinstri kantinum sem dregur sig líka mikið inn - svo koma þeir upp með bakverðina og við verðum að verjast því."

Aron Einar Gunnarsson verður í banni á morgun og þá er Jóhann Berg Guðmundsson tæpur vegna meiðsla. Eyjólfur segir þó að þetta kalli ekki á stórtækar breytingar í sínu liði.

„Nei, kannski ekki miklar breytingar. Við verðum að sjá til hvernig æfingin verður í dag og hverjir eru klárir í þetta verkefni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×