Fótbolti

Gylfi: Erum venjulegir aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Mynd/Anton
Gylfi Þór Sigurðsson segir að leikmenn hafi verið nokkuð niðurlútir eftir tapið um helgina en séu nú búnir að ná sér aftur á strik.

Ísland tapaði um helgina fyrir Hvíta-Rússlandi, 2-0, í fyrsta leik á EM U-21 liða í Danmörku. Strákarnir fá þó tækifæri til að koma sér upp úr lægðinni gegn Sviss á morgun. Tap þýðir hins vegar að Ísland er svo gott sem úr leik.

„Ég veit lítið um Sviss,“ sagði Gylfi á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag. „En þeir spila boltanum mikið á milli sín og eru með nokkra mjög góða einstaklinga og svo sterka liðsheild. Ég á því von á hörkuleik.“

„Stemningin hjá okkur leikmönnunum er mjög fín. Það var heldur rólegt í hópnum eftir tapleikinn og menn langt niðri. En eftir æfinguna í gær erum við búnir að snúa þessi við og næstum því orðnir venjulegir aftur. Við erum byrjaðir að gíra okkur upp í leikinn á morgun.“

Á æfingu liðsins í dag tóku nokkrir leikmenn sig til og sturtuðu úr nokkrum vatnsflöskum yfir Hjört Hjartarson, íþróttafréttamann Rúv, og höfðu gaman að. Eyjólfur Sverrisson þjálfari skaut því inn í dag að það hefði kannski orðið til þess að strákarnir fundu gleðina á ný.

„Maður fórnar sér fyrir liðið,“ sagði Hjörtur þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×