Fótbolti

Blaðamaður frá Sviss: Ísland hentar Sviss illa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Leikmenn Sviss fagna sigrinum gegn Dönum um helgina.
Leikmenn Sviss fagna sigrinum gegn Dönum um helgina. Nordic Photos / AFP
Michele Coviello, íþróttablaðamaður frá Sviss, á von á því að það verði lítið skorað í leik Íslands og Sviss í EM U-21 liða í Danmörku í dag.

Coviello starfar fyrir Aargauer Zeitung í Sviss og er staddur í Álaborg til að fjalla um Evrópumeistaramótið. „Þetta verður örugglega ekki auðveldur leikur fyrir svissneska liðið," sagði hann í samtali við Vísi. „Ég hef heyrt að Ísland spilar fótbolta sem hentar Sviss ekkert sérstakleag vel. Íslendingar spila sterka vörn og þjálfari Sviss hefur til að mynda sagt að hann óttist að sínir menn muni lenda í vandræðum í sóknarleiknum."

Að sama skapi segir hann að lið Sviss sé með sterka vörn og því á hann ekki von á því að það verði skoruð mörg mörk í kvöld. „Við höfum sýnt að við getum spilað ágæta vörn en sérstaklega erum við með sterkan markvörð - Yann Sommer. Hann átti frábæran dag gegn Dönum um helgina. Hins vegar höfum við lent í vandræðum í vörninni og til að mynda þurft að vera með hægri bakvörð í stöðu vinstri bakvarðar."

Sviss vann 1-0 sigur á Danmörku um helgina og sigur í kvöld mun fleyta liðinu langleiðina í undanúrslitin. „Sigurinn um helgina var verðskuldaður miðað við frammistöðu liðsins í leiknum. En þeir voru líka heppnir. Sommer átti til dæmis frábæran leik í markinu og svo lítur út fyrir að Danir hafi skorað löglegt mark undir lok leiksins sem var dæmt af vegna rangstöðu."

„Ég hef fundið það á viðtölum við leikmenn svissneska liðsins að þeir eigi von á erfiðum leik. Sérstaklega muni reyna mikið á líkamlegu hliðina þar sem íslensku leikmennirnir séu sterkir. Það er erfitt að spá um úrslit leiksins og kannski líklegast að niðurstaðan verði jafntefli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×