Fótbolti

Íslenskum liðum gengið illa með Sviss í gegnum tíðina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Shaqiri framherji Svisslendinga er skotglaður leikmaður
Shaqiri framherji Svisslendinga er skotglaður leikmaður Mynd/Getty Images
Íslenska U-21 landsliðið mætir í dag liði Sviss á EM í Danmörku og er að duga eða drepast fyrir drengina okkar.

Ísland má alls ekki við því að tapa leiknum í dag til að eiga enn möguleika á að komast upp úr sínum riðli og í undanúrslit keppninnar. Drengirnir töpuðu sínum fyrsta leik fyrir Hvít-Rússum, 2-0, en Svisslendingar unnu sjálfa gestgjafana, Dani, 1-0 um helgina.

Knattspyrnusamband Evrópu tekur saman hversu oft landslið og félagslið frá viðkomandi löndum hafa mæst og er samanburðurinn fyrir leikinn í kvöld Íslandi heldur betur í óhag, þó það hafi vitaskuld lítið sem ekkert að segja þegar út í sjálfan leikinn er komið.

U-21 lið Íslands og Sviss voru saman í undankeppninni fyrir EM 1996 og vann síðarnefnda þjóðin báðar viðureignirnar, 2-1 á heimavelli og 4-2 á Íslandi.

U-17 liðin hafa tvívegis mæst og Svisslendingar unnu í bæði skiptin. 2-0 árið 2002 og svo 2-1 fyrir þremur árum síðan.

A-landslið Sviss hefur unnið allar fjórar viðureignar sínar gegn Íslandi og spilaði Eyjólfur Sverrisson tvívegis með íslenska landsliðinu gegn því svissneska í undankeppni EM 1996.

Félagslið frá Íslandi og Sviss hafa tólf sinnum mæst í gegnum tíðina. Átta sinnum hefur niðurstaðan verið svissneskur sigur en fjórum sinnum jafntefli.

Eini sigurinn sem fannst í þessari samantekt var sigur A-liðs kvenna á stöllum sínum frá Sviss í vináttulandsleik sem fór fram á Akranesi í ágúst árið 1986. Sá leikur vannst, 1-0. Kvennalandsliðin hafa alls þrívegis mæst en einum leik lauk með jafntefli og einum með sigri Sviss.

Xherdan Shaqiri tryggði Svisslendingum 1-0 sigur á Dönum um helgina en hann hefur einnig skorað gegn íslensku liðið. Það gerði hann í leik með Basel gegn KR í 3-1 sigri liðsins á heimavelli í undankeppni Evrópudeild UEFA fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×