Fótbolti

Svissnesk knattspyrna í blóma

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ottmar Hitzfeld þjálfari A-landsliðs Sviss er mættur til Danmerkur
Ottmar Hitzfeld þjálfari A-landsliðs Sviss er mættur til Danmerkur Mynd/Getty Images
Ísland mætir Sviss í riðlakeppni EM U-21 landsliða í Álaborg í dag. Fyrirfram verða Svisslendingar að teljast líklegri til sigurs en liðið sigraði Dani 1-0 í fyrsta leik sínum í riðlinum.

Sviss varð í efsta sæti síns riðils í undankeppninni. Liðið var með Tyrklandi, Georgíu, Armeníu, Eistlandi og Írum í riðli. Sviss sigraði í sex leikjum, gerði tvö jafntefli og tapaði tveimur leikjum. Tapleikirnir voru úti gegn Tyrkjum og óvænt 1-0 tap á heimavelli gegn Eistum.

Líkt og hjá íslenska landsliðinu voru helstu stórstjörnur landsliðsins svo sem Xherdan Shaqiri og Granit Xhaka fjarri góðu gamni í undankeppninni. Þrátt fyrir það vann Svis riðil sinn nokkuð sannfærandi.

Í umspilinu tóku Svisslendingar frændur okkar Svía í kennslustund. Unnu heimaleikinn 4-1 og gerðu jafntefli 1-1 í síðari leiknum í Svíþjóð. Markvörður Sviss, Yann Sommer, varði vítaspyrnu Svía í stöðunni 3-1 í fyrri leiknum sem átti eftir að reynast dýrkeypt.

Svisslendingar hafa áður komist í úrslitakeppni Evrómótsins U-21 landsliða, árið 2002 og 2004. Í fyrra skiptið komust þeir alla leið í undanúrslit en höfnuðu í neðsta sæti riðils síns í síðara skiptið.

Þeir voru hársbreidd frá því að komast í úrslitakeppnina í Svíþjóð 2009 eftir dramatískt einvígi gegn Spánverjum. Sviss vann heimaleikinn 2-1 en datt út eftir 3-1 tap í framlengdum leik á Spáni.

Landslið Sviss skipað leikmönnum yngri en 17 ára varð heimsmeistari árið 2009. Nokkrir leikmenn U-21 landsliðsins léku með liðinu í mótinu.

A-landslið Sviss hefur gert góða hluti á undanförnum árum. Liðið hefur verið fastagestur á stórmótum í knattspyrnu frá Evrópumótinu í Portúgal 2004. Sviss var gestgjafi á EM 2008 ásamt Austurríki og komst í lokakeppnir HM 2006 og 2010.

Á HM 2006 í Þýskalandi féll liðið úr leik í 16-liða úrslitum eftir vítaspyrnukeppni gegn Úkraínu. Sviss fékk ekki á sig mark í keppninni.

Á HM 2010 í Suður-Afríku sigruðu þeir Spánverja afar óvænt í fyrsta leik keppninnar. Varnarleikur þeirra þótti til fyrirmyndar en markaleysi varð liðinu að falli. Sigurmarkið gegn Spánverjum var þeirra eina mark í keppninni.

Það er ljóst að það verður á brattann að sækja hjá íslensku strákunum í Álaborg í kvöld. Svissnesk knattspyrna er í blóma um þessar mundir og íslenskum lands- og félagsliðum hefur gengið illa í viðureignum sínum við Svisslendinga. Íslensku strákarnir eru þó ekki að ástæðulausu meðal þátttakanda í Danmörku og eru til alls vísir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×