Fótbolti

Gylfi Þór veikur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Birkir Bjarnason og Gylfi Þór Sigurðsson, leikmenn U-21 liðs Íslands.
Birkir Bjarnason og Gylfi Þór Sigurðsson, leikmenn U-21 liðs Íslands. Mynd/Valli
Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður U-21 landsliðsins, er nú að glíma við smávægileg veikindi að sögn landsliðsþjálfarans.

„Vonandi er þetta bara eins dags fluga,“ sagði Eyjólfur Sverrisson í samtali við Vísi í dag. Liðið lenti í Kaupmannahöfn síðdegis og er nú á leið til Álaborgar á Jótlandi með rútu.

„Það var svo sem ágætt að þetta kom upp í dag en ekki á leikdegi. Við erum vongóðir um að þetta gangi yfir fljótt og vel.“

„Annars eru allir heilir fyrir utan smotterí hér og þar eins og gengur og gerist. Rúrik gat æft með okkur í gær og er klár að eigin sögn.“

Landsliðið mun ekki æfa í kvöld eins og til stóð þar sem að fluginu út til Danmerkur seinkaði í morgun vegna verkfalls flugvirkja Icelandair.

„Það var verst að missa af æfingunni því hún hefði verið kærkomið tækifæri til að fara yfir nokkur mál, til dæmis föst leikatriði,“ sagði Eyjólfur.

„En við þurfum bara að nýta tímann þeim mun betur fram að leik. Við munum æfa tvisvar á morgun og svo aftur á föstudaginn. Við vissum að við þyrftum að vera skipulagðir og það hefur ekkert breyst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×