Fótbolti

Haraldur: Styttra mót en bikarkeppnin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Haraldur Björnsson hefur ekki áhyggjur af markvörslunni hjá U-21 liði Íslands í leikjunum sem eru fram undan á EM í Danmörku.

„Ég er mjög vel stemmdur og veit að Arnar og Óskar eru það líka. Við verðum tilbúnir sama hver spilar,“ sagði Haraldur við Vísi en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

Liðið náði sjaldnast að halda hreinu í leikjum sínum í undankeppninni en Haraldur hefur ekki áhyggjur af því.

„Nei, við erum komnir hingað og það er það sem skiptir máli. Við höfum skorað fullt af mörkum en líka varist vel. Þó að við höfum fengið á okkur einhver mörk skiptir það engu í dag.“

„Ég er alltaf á tánum. Að þessu hefur maður verið að vinna lengi. Við komumst ekki svona langt þegar við vorum hjá Luka (Kostic) en núna hefur allt gengið upp.“

„Okkar leikur er þannig að við liggjum oft til baka og beitum hröðum skyndisóknum,“ segir hann um leikinn á laugardaginn. „Annars er það þannig á svona mótum að það þarf allt að ganga upp til að vel fari. Þetta eru fimm leikir og þá ertu orðinn Evrópumeistari. Þetta er því styttra en bikarkeppnin heima.“

„Það mun mikið velta á dagsforminu og það þarf allt að ganga upp.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×