Innlent

Bjarga búfénaði frá öskufallinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vilhelm Gunnarsson tók þessa mynd í dag.
Vilhelm Gunnarsson tók þessa mynd í dag.
Heimamenn hafa í dag verið að bjarga búfénaði í nágrenni við gosstöðvarnar í Grímsvötnum. Þessi bóndi á Hörgslandi var að bjarga hestinum sínum þegar Vilhelm Gunnarsson ljósmyndara bar að garði fyrir stundu. Gríðarleg svifryksmengun er vegna öskufallsins. Almannavarnir segja að mikilvægt sé að forða skepnum undan öskufalli og hýsa þær eða flytja annað ef mögulegt er. Tryggja þarf skepnum á útigangi hreint drykkjarvatn og gefa þeim gott fóður.

Umhverfisstofnun hefur virkjað viðbúnaðarstöðu vegna gossins í Grímsvötnum. Undirbúningur er hafinn að því að flytja loftgæðamælistöð frá Akureyri og verður hún sett upp á Kirkjubæjarklaustri á morgun, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Loftgæðamælistöðin á Raufafelli, undir Eyjafjöllum, bilaði í nótt og verður reynt að gera við hana eins fljótt og hægt er. Á morgun verður staðan skoðuð betur og metin þörf á að fjölga mælum á áhrifasvæði gossins og þá um staðsetningu þeirra. Upplýsingum um loftgæðamælingar verður komið á framfæri um leið og þær liggja fyrir.

Umhverfisstofnun hefur útbúið leiðbeiningar fyrir almenning um viðbrögð við öskufalli. Þar á meðal er myndband sem gerir fólki kleift að meta magn svifryks út frá skyggni.



Sjá frétt um málið á vef Umhverfisstofnunar.






Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×