Innlent

Kerin full af ösku - fleiri hundruð kíló af bleikju drapst

Hafsteinn Hauksson skrifar
Mynd úr safni
Mynd úr safni
Um tvö til þrjúhundruð kíló af bleikjum hafa drepist í fiskeldi nálægt gosstöðvunum. Starfsmenn sjá vart í kerin fyrir ösku, svo heildartjónið kemur ekki í ljós fyrr en rofa tekur til.

Fiskeldi hefur verið í grennd við Kirkjubæjarklaustur lungann úr síðasta áratug, en þar eru um fjörutíu til fimmtíu tonn af bleikju um þessar mundir. Birgir Þórisson, rekstrarstjóri Klausturbleikju, segist aldrei hafa órað fyrir ástandinu sem nú ríkir á svæðinu, en þar reyna menn nú að bjarga því sem bjargað verður.

„Við erum trúlega á einum versta staðnum hérna, þar sem askan er mest," segir Birgir, en eldisstöðvarnar eru um 20 kílómetrum austan við Kirkjubæjarklaustur. Hann segist vita til þess að nokkuð magn af fiski hafi þegar drepist.

„Ég var að reyna að skjóta á þetta í morgun; þetta eru allavega um tvö til þrjúhundruð kíló sem við erum búnir að missa, en það er náttúrulega peanuts miðað við það sem við erum með. Við vitum þó raunverulega ekkert, það er þetta óvissuástand sem er erfiðast hjá okkur. Það er svo óhreint vatnið í kerjunum að við vitum ekki hvaða áhrif þetta kann að hafa."

Hann segir að heildartjónið komi því ekki í ljós fyrr en að einhverjum dögum liðnum. Hann veit þó lítið við hverju á að búast.

„Það er lítill flúor í þessu, svo eitrunaráhrifin eru ekki mikil, eftir því sem dýralæknir segir mér. En það er spurning hvað þetta varir lengi og hvaða áhrif þetta hefur. Askan er farin að skafa í skafla, og maður veit ekki hvort þetta getur valdið stíflunum. Þetta er óvissa. En 99% er lifandi ennþá. Við erum nokkuð ánægðir með það.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×