Innlent

Flóknar "alvöruviðræður" við Alcoa um Bakka

Lausafjárstaða Landsvirkjunar hefur aldrei verið sterkari. Forstjórinn segir að áherslan verði nú á Þingeyjarsýslur og staðfestir að samningaviðræður standi yfir við Alcoa.

Ársreikningur Landsvirkjunar sem birtur var í dag sýnir hreinar eignir upp á 188 milljarða króna, sem skiluðu á síðasta ári 26 milljörðum króna í handbært fé, og átti fyrirtækið um áramót 66 milljarða króna í lausu fé, sem er það mesta í sögunni.

Auknar raforkutekjur af álverum skýra aukinn hagnað, en Landsvirkjun segir að þar komi til bæði aukin sala og hærra verð vegna verðhækkana á áli. Þannig hækkaði meðalraforkuverð til stóriðju um 32 prósent milli ára, úr 19,5 upp í 25,7 dollara á hverja megavattstund.

Áherslan er nú á Þingeyjarsýslur, segir Hörður Arnarson forstjóri.

"Það er ljóst að öll okkar áhersla er á það núna að finna kaupendur sem vilja staðsetja sig á Norðausturlandi. Þar eru þeir orkukostir sem við höfum næst á eftir Búðarhálsi," segir Hörður.

Æðstu ráðamenn Alcoa lýstu því yfir á Íslandi í síðasta mánuði að þeir hefðu enn fullan hug á að reisa álver við Húsavík og í síðustu viku fundaði sendinefnd Landsvirkjunar með Alcoa-mönnum í New York.

Hörður staðfestir að viðræður standi yfir við Alcoa en kveðst ekki vilja ræða um einstaka aðila. Þegar hann er spurður hvort samningaviðræður séu hafnar um verð eða hvort þetta séu aðeins könnunarviðræður svarar Hörður:

"Nei, þetta eru ekki könnunarviðræður. Þetta eru alvöruviðræður, í fullri alvöru, og að sjálfsögðu er meðal annars verið að ræða um verð. Það er einnig verið að ræða margt annað sem er í svona flóknum samningum. En ég endurtek líka að við erum að ræða við fjölmarga aðra aðila sem eru ekki síður áhugasamir en Alcoa."

-Þannig að Alcoa er ekki endilega númer eitt í röðinni?

"Það er enginn númer eitt. Þetta eru allt mjög æskilegir viðskiptavinir, mjög góð fyrirtæki, og vonandi náum við bara sem fyrst að landa samningum við einhvern þeirra."

Hörður staðfestir að Alcoa er tilbúið að laga sig að orkugetu héraðsins.

"Ef þeir væru ekki tilbúnir að laga sig að þessu, þá værum við ekki að ræða saman."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×