Innlent

Vilja fresta aðildarviðræðum vegna Icesave

Andri Ólafsson skrifar
Hollenskir þingmenn vilja að aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið verði frestað ef Íslendingar fella Icesavesamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Fréttir af því að Icesave fari í þjóðaratkvæðagreiðslu hafa vakið hörð viðbrögð margra þingmanna á hollenska Þinginu. Einn þeirra er Mark Harbers, þingmaður frjálslyndra, sem er stærsti flokkurinn á þinginu en flokkurinn leiðir minnihlutastjórnina sem nú er við völd í Hollandi.

„Já, ég get vel skilið að þetta sé eins og fiskbein í hálsi Íslendinga en þeir skuldbundu sig til að endurgreiða peningana. Í hita kreppunnar 2008 fengu Íslendingar líka stór lán frá AGS og þau voru veitt með því skilyrði að Íslendingar borguðu þessar skuldir. Nú liggur fyrir góður samningur, vaxtaprósentan hefur lækkað, þeir fá 30 ár til að greiða þetta. Svo ég segi: Nú ættu Íslendingar, svona einu sinni, að segja já."

Og ef það gerist ekki, hvað þá?

„Íslendingar vilja ganga í Evrópusambandið. Ég held að þeir muni vita að það sé betra að vera í ESB á krepputímum eins og hafa verið síðustu ár. Ef ég fæ einhverju ráðið mun Holland koma í veg fyrir það ef þeir borga ekki skuldir sínar. AGS hefur einnig krafist þess að þessi skuld verði greidd svo þetta getur líka haft áhrif á þau lán sem Íslendingar fengu frá AGS."

Jolande Sap er formaður vinstri grænna sem eiga 10 sæti á þingi Hún segir að ef Íslendingar fella Icesamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu eigi að setja aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið á bið.

„Þetta er ekki hótun heldur niðurstaða. Þetta er samningur sem við teljum að eigi að standa við. Það er mjög sanngjörn tillaga sem lögð hefur verið fyrir Íslendinga. Þeir höfðu nokkuð til síns máls í fyrra skiptið, vextirnir voru háir, en nú hafa þeir lækkað verulega og við höfum náð sanngjarnri niðurstöðu. Ef þeir eru ekki sammála þessu hefur það sínar afleiðingar," segir Jolande.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×