Innlent

Maður á fertugsaldri í varðhaldi

Breki Logason skrifar
Maðurinn sem hnepptur var í varðhald er sagður hafa tengsl við Steingrím Þór.
Maðurinn sem hnepptur var í varðhald er sagður hafa tengsl við Steingrím Þór.

Þrjátíu og sex ára gamall karlmaður var í gær úrskurðaður í gæsluvarðhald í tengslum við umfangsmikið fjársvikamál sem nú er til rannsóknar hjá lögreglu. Hann hefur tengsl við höfuðpaurinn í málinu sem handtekinn var í Venesúela í lok september. Alls hafa átta manns verið handteknir í tengslum við málið.

Málið snýst um svik á virðisaukaskatti, en talið er að 270 milljónir króna, hafi verið sviknar út úr starfsemi tveggja fyrirtækja sem stofnuð voru gagngert til svikanna. Um miðjan september voru fjórir karlmenn og tvær konur handteknar í tengslum við málið, en einn þeirra var starfsmaður Ríkisskattstjóra.

Fljótlega beindist grunur að manni sem talinn er vera höfuðpaur í málinu, en hann hafði farið úr landi skömmu áður en málið kom upp. Maðurinn sem heitir, Steingrímur Þór Ólafsson, var eftirlýstur á Schengen svæðinu en hann var handtekinn á flugvelli í Venesúela í lok september.

Lögregla bíður nú eftir að hann verði framseldur til Íslands.

Einum sexmenninganna sem handteknir voru í upphafi var sleppt í síðustu viku áður en gæsluvarðhald yfir honum rann út. Á heimili hans fundust um ellefu kíló af hassi, sem talin eru tengjast málinu.

Í gær var síðan annar maður úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins. Sá er fæddur árið 1974 og hefur samkvæmt heimildum fréttastofu tengsl við Steingrím sem handtekinn var í Venesúela. Hann var nokkuð umsvifamikill veitingamaður hér á landi fyrir skömmu og hefur áður komið við sögu lögreglu vegna fíkniefnamála. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á föstudag, en gæsluvarðhald yfir þeim fimm sem setið hafa í varðhaldi vegna málsins rennur út á morgun.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×