Leki kom að bátnum Stormur-Breki, sem er 70 tonna trébátur, laust fyrir klukkan fjögur í dag. Sjór var kominn í lest, vélarrými og framskip bátarins þar sem hann var staddur 8 sjómílur af Herdísarvík og stefndi til Þorlákshafnar.
TF LÍF, þyrla Landhelgisgæslunnar, sem var að koma inn til lendingar í Reykjavík tók um borð dælu og hélt strax áleiðis á staðinn. Oddur V Gíslason, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar í Grindavík, hélt einnig úr höfn með dælur, slökkviliðsmenn og kafara. Lóðsbáturinn í Þorlákshöfn hélt einnig til móts við bátinn.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni var TF LÍF komin yfir bátinn kl. 16:25. Stýrimaður þyrlunnar seig niður með dælu og hóf þegar að dæla úr bátnum. Stormur Breki hélt til hafnar um átta mínútur í fimm og var kominn þangað klukkan sex. Nota átti bátinn sem lak í kvikmyndagerð um Helliseyjarslysið.

