Innlent

Gæti átt afnotarétt að auðlindinni í mörg hundruð ár

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Ekkert í gildandi lögum kemur í veg fyrir að afnotaréttur að orkuauðlindum verði framlengdur oftar en einu sinni. Það er því ekkert í lögunum sem bannar Magma Energy að hafa afnotarétt að orkuauðlindum á Reykjanesi í gegnum eignarhald sitt á HS Orku í til dæmis 500 ár.

Lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu var breytt árið 2008 þannig að veita mátti tímabundinn afnotarétt að auðlindum í jörðu í allt að 65 ár í senn, en handhafi afnotaréttar á síðan rétt á viðræðum um framlengingu réttarins.

Ítrekað hefur komið fram hjá þingmönnum og öðrum að HS Orka geti ekki átt nýtingarrétt að auðlindum í jörðu lengur en í 130 ár. Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og MBA, segir þetta sé hreinlega rangt, en hann hefur sérhæft sig í löggjöf á þessu sviði.

Ekkert í lögunum sem bannar framlengingu oftar en einu sinni

Er eitthvað í gildandi lögum sem kemur í veg fyrir, eða beinlínis bannar að afnotarétturinn verði framlengdur oftar en einu sinni eða oftar en tvisvar? „Nei, það er ekkert sem beinlínis bannar það. Þvert á móti er það leyft að afnotarétturinn sé framlengdur. Það er aldrei hægt að gefa afnot lengur en í sextíu og fimm ár í senn en eins og lögin eru er síðan hægt að framlengja hann um sextíu og fimm ár og aftur um sextíu og fimm ár, út í hið óendanlega, ef að lögunum verður ekki breytt í framtíðinni," segir Ketill.

Í frumvarpsdrögunum árið 2008 var gert ráð fyrir fjörutíu ára afnotarétti, þessi tími var síðan lengdur í meðförum iðnaðarnefndar Alþingis. Ketill segir að undirbúningsgögn laganna sýni að einhver orkufyrirtæki hafi þrýst á að þessi tími yrði lengdur.

Hvaða fyrirtæki eru þetta? „Það kemur ekki fram í gögnunum en það blasir við að það hljóti að hafa verið HS Orka eða eigendur HS Orku sem hafi viljað fá þennan rétt því hin stóru orkufyrirtækin eru ekki í einkaeigu þannig að þetta ákvæði snertir þau ekki," segir Ketill.

Ketill segir að sterkar vísbendingar séu um að það hafi einmitt verið HS Orka sem hafi þrýst á að þessi afnotaréttur yrði lengdur, en á þessum tíma var FL Group eini einkaaðilinn sem átti hlut í HS Orku í gegnum Geysi Green Energy.

Lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sæta nú endurskoðun og stendur vinna þess efnis yfir í iðnaðarráðuneytinu.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×