Enski boltinn

Noel Gallagher telur að Tevez verði áfram hjá City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Popparinn Noel Gallagher telur að Carlos Tevez muni ekki fara frá Manchester City eins og leikmaðurinn sjálfur hefur sagst vilja gera.

Gallagher er einn af frægustu stuðningsmönnum City en sló í gegn með hljómsveit sinni, Oasis, á sínum tíma.

„Ef hann fer þá er það í fyrsta sinn sem ég heyri af því að knattspyrnumaður fari frá félagi vegna þess að honum líkar ekki við einhvern á skrifstofunni," sagði Gallagher við enska blaðið The Guardian.

„Ég kaupi þetta ekki. Maðurinn talar ekki ensku og af hverju ættum við þá að trúa því að hann eigi yfir höfuð í samskiptum við forráðamennina upp á skrifstofu - nema þá að hann hafi verið að reyna að ná sér í betri samning."

„Ef hann ætlar að standa við orð sín þá eru möguleikarnir tveir - annað hvort fara frá félaginu eða hætta. En ég tel að það búi meira að baki."

„Það var það sama sagt um Wayne Rooney - að hann myndi fara frá United. Það sem er að gerast nú að umboðsmaður Rooney setti ný viðmið í samningaviðræðum. Ég myndi því veðja á að Tevez verður hér áfram á næsta tímabili."

Gallagher telur að stuðningsmenn muni ekki púa á hann ef hann spilar með City gegn Everton á mánudaginn. „Ég tel hann vera besta leikmann félagsins frá upphafi. Ef hann stendur sig áfram vel inn á vellinum þá munu stuðningsmenn ekki snúast gegn honum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×