Innlent

Þriðjungur Íslendinga mjög andvígur mosku

Skiptar skoðanir eru á því meðal landsmanna hvort byggja eigi mosku í Reykjavík. Samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins eru 41,8 prósent andvígir byggingu mosku en 36,6 prósent eru hlynntir því að moskan rísi.

Alls sögðust 17,2 prósent mjög fylgjandi því að múslimar fái að byggja mosku í Reykjavík, og 19,4 prósent sögðust því frekar fylgjandi. Þá sögðust 21,6 prósent hlutlaus í afstöðu sinni til byggingar mosku. Um 13,5 prósent þeirra sem afstöðu tóku voru frekar andvíg því að múslimar fái að reisa mosku í Reykjavík, og 28,3 prósent voru því mjög andvíg.

Talsverður munur er hins vegar á afstöðu fólks eftir því hvaða stjórnmálaflokk það myndi kjósa yrði gengið til kosninga nú.

Stuðningsmenn Vinstri grænna eru hlynntastir byggingu mosku, 52,9 prósent sögðust fylgjandi byggingum mosku en 25,9 prósent sögðust henni andvíg.

Stuðningsmenn Samfylkingarinnar voru einnig jákvæðir til byggingar mosku, 46,8 prósent sögðust því fylgjandi en 29,9 prósent sögðust því andvíg.

Á meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins var mun minni stuðningur við byggingu mosku. Alls sögðust 26,7 prósent því hlynnt en 48,1 prósent andvígt.

Alls sögðust 37,5 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokksins fylgjandi því að múslimar fái að reisa mosku, en 45,8 prósent voru því andvígir.

Ekki reyndist tölfræðilega marktækt að reikna afstöðu stuðningsmanna annarra flokka til spurningarinnar.

Hringt var í 800 manns fimmtudaginn 23. september. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Hversu fylgjandi eða andvíg(ur) ertu því að múslimar fái að reisa mosku í Reykjavík? Alls tóku 97,1 prósent afstöðu til spurningarinnar.

brjann@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.