Innlent

Villtir laxastofnar njóti fjármálagróða

Paul Volcker stýrði Bandaríkjunum út úr verðbólguskeiði sem seðlabankastjóri og talar nú fyrir verndun laxastofna.
Nordic Photos/AFP
Paul Volcker stýrði Bandaríkjunum út úr verðbólguskeiði sem seðlabankastjóri og talar nú fyrir verndun laxastofna. Nordic Photos/AFP

Paul Volcker, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hefur gengið til liðs við Norður-Atlantshafslaxasjóðinn (NASF) undir formennsku Orra Vigfússonar.

„Nýlega valdi Obama forseti Volcker til að leiða teymi hans um efnahagslega endurreisn og nú er það Norður-Atlantshafslaxajóðurinn sem biður um liðsinni Volckers til að endurreisa stofna villta Atlantshafslaxins,“ segir í frétt frá NASF.

Volcker, sem var seðlabankastjóri Bandaríkjanna á árunum 1979 til 1987, er persónulegur vinur Orra Sigfússonar og forfallinn fluguveiðimaður. Að því er segir í tilkynningunni frá NASF hefur Volcker um árabil stutt sjóðinn í að kaupa upp netalagnir laxveiðimanna í sjó á Norður-Atlantshafi og þar með leitast við að laxinn gæti gengið í ár sínar og hrygnt.

Til að styðja NASF samþykkti Volcker nýlega að halda ræður í tveimur kvöldverðum með áhrifafólki í fjármálaheiminum í París og London. Óhætt er að segja að Volcker njóti víðtækrar virðingar fyrir störf sín. Þannig segir núverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Ben Bernanke, í grein í nýjasta hefti tímaritsins Time að sigur seðlabankans, undir stjórn Volckers, á verðbólgu snemma á níunda áratugnum hafa lagt grunn að vexti hagkerfisins í áratugi.

Að því er segir í tilkynningu NASF sagði Volcker í París að fjármálafyrirtæki, sérstaklega í Bandaríkjunum og Englandi, hefðu verið ákaflega ábatasöm. Í anda þess að „þiggja og gefa“ ættu sum þessara fyrirtækja og einstaklingar sem hafa hagnast vel að leggja rausnarleg framlög til NASF. - garAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.