Innlent

Rannsaka hníf sem unglingar fundu í smábátahöfninni

Lögregla rannsakar nú hníf sem fannst við smábátahöfnina í Hafnarfirði. Tveir 15 ára piltar gáfu sig fram við lögreglu um helgina og framvísuðu hnífi sem þeir höfðu fundið í smábátahöfninni í Hafnarfirði.

Þeir fundu hnífinn fyrir nokkrum dögum síðan og tóku hann til handargagns. Að sögn lögreglunnar áttuðu þeir sig ekki á mögulegum tengslum við rannsóknina á morðinu á Hannesi Þór Helgasyni fyrr en þeir fréttu af því að kafarar lögreglunnar væru að leita að morðvopninu í smábátahöfninni.

Hnífurinn, sem samsvarar vel til lýsingar og hugmynda sem lögreglan hefur af morðvopninu, verður sendur á rannsóknarstofu lögregluyfirvalda í Svíþjóð.

Niðurstaða þeirrar rannsóknar mun síðan skera úr um hvort hnífurinn tengist málinu.

Mikil leit hefur verið gerð að morðvopninu sem notað var þegar Hannes Þór Helgason var myrtur en hún hefur engan árangur borið hingað til.

Gunnar Rúnar Sigurþórsson, sem játað hefur að hafa orðið Hannesi að bana sagðist við yfirheyrslur hafa hent hníf sem hann notaði í árásinni í höfnina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×